Albert Guðmundsson var í byrjunarliði AZ Alkmaar sem mætti FC Twente í Eredivisie í Hollandi.
AZ skoruðu fjögur mörk á móti einu marki Twente en það verður að teljast ansi magnað að þrjú mörk af fimm voru sjálfsmörk. Bæði Dario Ðumic og Joel Drommel komu boltanum í sitt eigið net, sem og Albert Guðmundsson. Með sigrinum styrkti AZ stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar og eru þeir farnir að saxa á PSV og Ajax sem eru í sætunum fyrir ofan.
Jón Daði Böðvarsson byrjaði á bekknum hjá Millwall sem mætti Wayne Rooney og félögum í Derby County. Eina mark leiksins var skorað af Shaun Hutchinson en Derby náði ekki að svara því og tóku Millwall öll stigin heim. Jón Daði fékk örfáar mínútur en hann kom inn á völlinn á 84. mínútu og aðstoðaði við að sigla sigrinum heim. Með sigrinum náði Millwall að lyfta sér upp í tíunda sæti deildarinnar á meðan Derby eru í nítjánda sæti, sjö stigum frá fallsæti.