Mauro Borghetti fyrrum þjálfari hjá Novara á Ítalíu segir að Bruno Fernandes hafi ekki litið út eins og knattspyrnumaður þegar hann kom til félagsins ungur að árum.
Novara fékk Bruno til félagsins fyrir níu árum síðan, hann var þá 17 ára gamall og kom til félagsins frá Boavista í heimalandi sínu Portúgal.
„Hann var hlédrægur og þroskaðist seint,“ sagði Borghetti þegar hann rifjaði upp hvernig það var að vinna með Bruno.
Bruno gerði ágætis hluti á Ítalíu en fór heim til Portúgals og sló í gegn með Sporting Lisbon áður en Manchester United keypti hann. Hjá Manchester United hefur hann slegið rækilega í gegn og er einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.
„Þegar hann kom til okkar, þá leit hann ekki út eins og fótboltamaður,“ sagði Borghetti og lét blaðamann fá mynd af Bruno þegar hann kom 17 ára til félagsins.
Bruno er í dag 26 ára gamall en hann á orðið fast sæti í landsliði Portúgals og er besti leikmaður Manchester United.