Forráðamenn Juventus eru sagðir skoða það alvarlega að losa sig við Cristiano Ronaldo ef sá möguleiki verður fyrir hendi. Ástæðan er slakt gengi í Meistaradeild Evrópu síðustu þrjú ár.
Ronaldo er á sínu þriðja tímabili með Juventus en liðið hefur aldrei farið lengra en átta liða úrslit á þeim tíma. Í gær féll liðið úr leik í 16 liða úrslitum gegn Porto.
Ronaldo er með 28 milljónir evra í árslaun hjá Juventus og fékk félagið hann aðeins með það eina markmið að vinna Meistaradeildina. Ronaldo á rúmt ár eftir af samningi sínum við félagið.
Juventus borgaði 100 milljónir evra fyrir Ronaldo þegar hann kom frá Real Madrid og segir í erlendum fréttum að félagið vonist til þess að fá hluta af þeirri upphæð til baka í sumar.
Í fréttum kemur fram að Aaron Ramsey verði einnig til sölu í sumar en félaigð ætlar að byggja lið sitt í kringum Demiral, Dejan Kulusevski, Matthijs de Ligt, Chiesa, Arthur og Weston McKennie.