Arnar Sveinn Geirsson, knattspyrnumaður og forseti leikmannasamtaka Íslands var viðmælandi Jóhanns Skúla Jónssonar í hlaðvarpsþættinum vinsæla Draumaliðið.
Arnar Sveinn er án félags í dag en hann þótti mikið efni á sínum yngri árum, árið 2007 var hann hluti af mjög sterku U17 ára landsliði Íslands undir stjórn Luca Lúkas Kostc. Leikmennirnir voru flestir 16 ára gamlir og náðu góðum árangri undir stjórn Kostic.
„Ég var alltaf mikill aðdáandi, skiptar skoðanir um þennan skóla sem hann bíður upp á. Austur-Evrópu skólann en mér fannst hann geggjaður,“ sagði Arnar Sveinn í viðtalinu við Jóhann Skúla, þegar hann rifjaði upp tímann undir sjórn Luca Kostic.
Reglurnar hjá Kostic voru harðar en Arnar telur að margir í þessum hópi hafi svindlað aðeins. „Maður átti að halda úti dagbók, þúsund magaæfingar og þúsund armbeygjur á viku og halda úti matardagbók. Ég hugsa að langflestir hafi logið í þessu,“ sagði Arnar.
Kostic var með nokkuð furðulegar reglur á leikdag sem leikmenn þurftu að fara eftir.
„Það var bannað að klippa táneglur á leikdag, þú máttir ekki borða of óþroskaðan banana. Það mátti alls ekki borða papriku eða tómata, ég man ekki hvort það var á leikdag. Þetta kom með honum, á sama tíma býr það til einhverja ákveðna stemmingu. Hann er með tilmæli, þér finnst það kannski fáránlegt en þá ertu að fylgja ramma sem lið. Allt í einu þorði ekki einhver að snerta hálf grænan banana.“