Granit Xhaka miðjumaður Arsenal gerði sig sekan um afar slæm mistök í leik liðsins gegn Burnley í gær, leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Arsenal komst yfir snemma leiks en í fyrri hálfleik var Arsenal með boltann upp við markið sitt, Xhaka fékk boltann og ætlaði að koma honum á samherja en sending hans endaði í Chris Wood og þaðan beint í netið.
Framherji Burnley þurfti ekkert að gera, Xhaka þrumaði boltanum í hann og þaðan fór hann beint í netið.
Xhaka var fljótur að axla ábyrgð á þessu og fór ekki í felur með þessi slæmu mistök sín. „Ég viðurkenni mistök mín í marki þeirra,“ skrifaði Xhaka á samfélagsmiðla eftir leik.
„Ég er leiður yfir þessu, svona er fótboltinn. Ég er eins pirraður og þið öll yfir þessu.“
Leikirnir við Burnley hafa reynst Xhaka erfiðir á þessu tímabili, hann var rekinn af velli í fyrri leiknum þegar hann tók leikmann Burnley hálfstaki í 0-1 tapi á heimavelli.
View this post on Instagram