Robbie Fowler, fyrrum leikmaður Liverpool, telur að sitt gamla félag eigi að selja Mohamed Salah, vilji hann fara að tímabilinu loknu.
Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Salah hjá Liverpool undanfarna mánuði. Egyptinn hefur verið lykilleikmaður hjá félaginu síðustu ár en talið er að Real Madrid og Barcelona vilji fá hann til liðs við sig.
Fowler telur að Liverpool eigi að láta hann fara sé það hans vilji og hámarka þannig hagnaðinn sem félagið gæti hlotið af félagsskiptunum.
„Ég er ekki að skjóta á Salah, ég elska hann en ég tel að félagsskipti leikmanna nú til dags velti að stærstum hluta á því hvað leikmaðurinn vill gera. Ef hann vill fara þá ætti hann að fara,“ sagði Fowler í viðtali hjá Mirror.
Salah hefur skorað 118 mörk í 189 leikjum fyrir Liverpool síðan að hann gekk til liðs við félagið í Bítlaborginni árið 2017 frá ítalska liðinu Roma.
„Klopp hefur sagt svipaða hluti og ég er að segja núna. Hann vill ekki hafa leikmann hjá féalginu sem vill ekki vera þar,“ sagði Robbie Fowler, fyrrum leikmaður Liverpool.