Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi sérfræðingur SkySports, hefur fengið nóg af afsökunum Bruno Fernandes, leikmanni Manchester United, varðandi gagnrýni sem hann hefur fengið vegna frammistaðna sinna gegn bestu liðum ensku úrvalsdeildarinnar.
Mikið hefur verið talað um frammistöður Bruno gegn bestu liðum ensku úrvalsdeildarinnar og hvernig hann á það til að hverfa í þeim leikjum. Manchester United hefur ekki gengið vel gegn þessum liðum á tímabilinu, ekki unnið leik og Bruno hefur legið undir mikilli gagnrýni.
Bruno kom með afsakanir í viðtali á SkySports á dögunum og Roy Keane var ekki hrifinn af því.
„Það er enginn að segja að hann hafi ekki gert vel, hann hefur verið frábær. En þegar að þú spilar fyrir Manchester United og ert ekki að standa þig nægilega vel í stærstu leikjunum þá muntu að sjálfsögðu hljóta gagnrýni,“ sagði Roy Keane.
Manchester United mætir erkifjendum sínum í Manchester City í dag.
„Sjáum til í dag hvað hann gerir á móti Manchester City. Ég veit að leikmenn verða að fara í viðtöl og svara gagnrýni en ekki láta það angra þig, ekki vera svona mikið smábarn,“ sagði Roy Keane.