Southampton heimsótti botnlið Sheffield United í dag á Bramall Lane. Fyrir leikinn voru Sheffield á botni deildarinnar með 14 stig, 12 stigum fra öruggu sæti en Southampton í því fjórtánda.
Danny Ings, aðalmarkaskorari Southampton, fór meiddur útaf á þrettándu mínútu leiks og er það mikill skellur fyrir þá. Þeir fengu vítaspyrnu stuttu eftir það þegar Ethan Ampadu braut á Nathan Tella þegar hann var sloppinn í gegn. James Ward-Prowse, fyrirliði Southampton, steig á punktinn og skoraði örugglega.
Í byrjun seinni hálfleiks skoraði síðan Che Adams með þrumufleyg eftir stoðsendingu frá Stuart Armstrong. Aaron Ramsdale í marki Sheffield kom engum vörnum við.
Í blálok venjulegs leiktíma henti John Fleck í rosalega tæklingu á Che Adams. Það sauð allt upp úr milli leikmanna en að lokum staðfesti VAR að ekki væri um rautt spjald að ræða og slapp Fleck með skrekkinn.
Southampton-menn fagna þessum sigri vel enda höfðu þeir fyrir leikinn ekki unnið leik síðan 4. janúar þegar þeir sigruðu Liverpool. Þeir sitja sem fastastir í fjórtánda sæti en eru þó komnir aftur á sigurbrautina.