Ný heimildarmynd um líf eins sigursælasta þjálfara sögunnar, Sir Alex Ferguson, kemur út á næstunni. Myndin ber nafnið Never Give In en í henni er farið yfir líf þessarar Manchester United goðsagnar.
Meðal annars er farið yfir þegar Ferguson hlaut heilablæðingu árið 2018.
„Ég man eftir því að detta, eftir það man ég ekki neitt. Ég hætti bara að virka. Ég var í einskismannslandi,“ segir Ferguson en hann var einn af fimm sem lagðir voru inn á sjúkrahúsið í Salford þennan dag með heilablæðingu. Þeir voru aðeins tveir sem lifðu af.
Ferguson gat ekki talað í smá tíma eftir atvikið. Hann fékk aðstoð frá talmeinafræðing og tíu dögum seinna gat hann talað aftur.
„Á þessum tímapunkti mat ég það að það væru 80% að hann myndi deyja,“ sagði Joshi George, ráðgjafi taugaskurðlæknis í Salford.
„Ég leit út um gluggann á spítalanum og velti því fyrir mér hversu marga fallega sumardaga ég ætti eftir að sjá. Mér fannst það mjög erfitt,“ segir Ferguson í myndinni en hún kemur út 27. maí næstkomandi.