Leik Brighton og Leicester var að ljúka rétt í þessu. Brighton komust yfir á tíundu mínútu með marki frá Adam Lallana eftir frábæra stoðsendingu Neal Maupay. Brighton-menn voru mun betri í fyrri hálfleik og því var 1-0 forskot mjög sanngjarnt þegar gengið var til búningsherbergja.
Brighton-menn spiluðu frábæra vörn í leiknum og náði Leicester nánast ekkert að skapa en um leið og vörnin opnaðist í fyrsta sinn í leiknum á 62. mínútu, nýtti Kelechi Iheanacho það og jafnaði metin.
Eftir þetta fóru Brighton að gera fleiri og fleiri mistök og svo gerðist það á 88. mínútu að Robert Sanchez, markvörður Brighton, ætlaði að kýla boltann eftir hornspyrnu en hitti hann ekki. Boltinn barst þá á fjærstöngina þar sem Daniel Amartey var einn og óvaldaður og skoraði sigurmark Leicester. 2-1 sigur niðurstaðan.
Með sigrinum lyfta Leicester-menn sér yfir Manchester United í annað sætið með 53 stig. Manchester United eiga leik til góða en sá leikur verður spilaður á morgun gegn Manchester City. Brighton eru í 16. sæti með aðeins 26 stig, þremur stigum frá fallsæti.