David Beckham eigandi Inter Miami í Bandaríkjunum er grunaður um svindl og svínarí á reglum MLS deildarinnar. Rannsókn er farin af stað og er Beckham sem eigandi félagsins grunaður um að hafa farið á svig við reglur.
Málið tengist Blaise Matuidi miðjumanni félagisns sem kom til Miami frá Juventus í ágúst. Inter Miami er sakað um að hafa farið á svig við reglur er varðar launapakka Matuidi.
Í MLS deildinni eru stjörnuleikmenn vel borgaðir en aðrir fara í sama hattinn og eru á fremur lélegum launum miðað við atvinnumenn í knattspyrnu.
Matuidi fellur í seinni flokkinn og er ekki flokkaður sem stjörnuleikmaður á launaskrá Inter Miami. Grunur leikur á um að Beckham og félagar hafi borgað honum á annan hátt en í gegnum félagið.
„MLS hefur hafið formlega rannsókn á samningi Inter Miami við Blaise Matuidi, við tjáum okkur ekki meira fyrr en rannsókn er lokið,“ sagði í yfirlýsingu deildarinnar.
Inter Miami var á sínu fyrsta tímabili á síðustu leiktíð, liðið mun á þessu ári leika undir sjtórn Phil Neville.