David De Gea spilar líklega ekki með Manchester United næstu vikurnar og verður líklega frá í tæpan mánuð, samkvæmt frétt Daily Mail. Crystal Palace tók á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í gær. Leikurinn fór fram á Selhurst Park og endaði með markalausu jafntefli. Það eru vondar fréttir fyrir Manchester United sem má ekki við því að tapa stigum ætli liðið sér að veita nágrönnum sínum í Manchester City samkeppni um Englandsmeistaratitilinn.
Liðið er sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 51 stig, fjórtán stigum á eftir Manchester City sem virðist ekki geta tapað knattspyrnuleik um þessar mundir.
David de Gea var fjarverandi í gær og eru ástæðurnar persónulegar, Daily Mail segir að unnusta De Gea sé að eignast þeirra fyrsta barn á Spáni.
De Gea fékk leyfi til að fara til Spánar og hefur Ole Gunnar Solskjær ráðlagt honum að vera með fjölskyldu sinni fram yfir landsleikjafríið í þessum mánuði.
De Gea verður því líklega ekki í marki United fyrr en í byrjun apríl á nýjan leik, tækifæri fyrir Dean Henderson að tryggja sér stöðuna í markinu.