Ramon Calderon fyrrum forseti Real Madrid telur að félagið hafi ekki efni á því að kaupa Mo Salah frá Liverpool í sumar. Sóknarmaðurinn knái hefur daðrað við Real Madrid og sagt félagið frábært.
Real Madrid hefur iðulega haft bolmagn til að kaupa bestu leikmenn í heimi en veiran hefur haft þau áhrif að fjárhagurinn er slæmur hjá Real Madrid.
„Hann er magnaður leikmaður og markaskorari, hann hjálpaði Liverpool en ég held að þeir leyfi honum ekki að fara,“ sagði Calderon.
„Liverpool myndi aðeins selja hann fyrir hátt verð, Salah er eftirsóttur og að sjálfsögðu hefði Real Madrid áhuga.“
„Salah er magnaður leikmaður sem getur orðið betri, það vilja öll félög fá hann. Ég tel að Real Madrid hafi ekki bolmagn í þetta á þessari stundu.“
Salah hefur verið lykilmaður í því að gera Liverpool aftur að einu besta liði í Evrópu eftir mögur ár á Anfield.