Harvey Barnes, miðjumaður Leicester City verður frá í um sex vikur en hann þarf að fara í aðgerð á hné vegna meiðsla sem hann hlaut í leik gegn Arsenal um síðustu helgi.
Arsenal vann leikinn 3-1 en Barnes þurfti að fara af velli á 51. mínútu vegna meiðslanna sem hann hlaut í leiknum.
Brendan Rodgers segir að meiðsli Barnes séu ekki eins slæm og forráðamenn Leicester héldu en hann verður samt sem áður lengi frá.
„Við vonumst til að hann geti farið í aðgerð á morgun. Þetta er smá viðgerð og vonandi verður hann klár eftir sex vikur en það eru mun betri fréttir en við héldum að við myndum fá,“ sagði Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester.
Barnes hefur leikið lykilhlutverk í liði Leicester á tímabilinu. Liðið er sem stendur í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 49 stig eftir 26 leiki. Barnes hefur spilað 25 af þessum 26 leikjum, skorað níu mörk og gefið 4 stoðsendingar.