Roy Keane og Graeme Souness sérfræðingar Sky Sports efast um það að Anthony Martial framherji Manchester United hafi ástríðuna til að spila og gera vel fyrir félagið.
Martial var settur á bekkinn í markalausu jafntefli gegn Chelsea í gær. Franski framherjinn hefur átt mjög erfitt uppdráttar á þessu tímabili.
Martial sem er 25 ára var öflugur á síðustu leiktíð en hefur ekki fundið taktinn. „Ég er ekki hissa að hann sé á bekknum, hann er ungur leikmaður með hæfileika. Sýnir hann einhverja ástríðu? Ég hef aldrei séð hann skipta skapi á vellinum,“ sagði Souness um málið.
„Hann er einn af þeim leikmönnum sem mun horfa á feril sinn og hugsa til þess að hann hefði getað gert miklu meira. Ég er aðdáandi en er það samt ekki.“
Martial hefur skorað fjögur deildarmörk á tímabilinu og Roy Keane hefur áhyggjur. „Hann virðist ekki elska leikinn, það er alltaf áhyggjuefni.“