Leikur Brighton og West Brom var að klárast rétt í þessu. Heimamenn í West Brom sigruðu leikinn 1-0 með marki frá Kyle Bartley á 11. mínútu leiksins. Conor Gallagher tók hornspyrnu sem Bartley stangaði inn. Þetta var þriðja mark Englendingsins á tímabilinu.
Brighton fengu tvisvar tækifæri til að jafna leikinn úr vítaspyrnu en báðar enduðu í tréverkinu. Á 19. mínútu þrumaði Pascal Gross boltanum í slánna eftir að boltinn fór í hendina á Okay Yokuslu en á 76. mínútu skaut Danny Welbeck í stöngina eftir að Conor Townsend braut á téðum Pascal Gross innan teigs.
Lee Mason, dómari leiksins, var í aðalhlutverki en á 29. mínútu skoraði Lewis Dunk beint úr aukaspyrnu en Mason dæmdi markið af. Stuttu seinna dæmdi hann markið gilt en síðan dæmdi hann markið aftur af og það stóð. Í endursýningu mátti sjá að Mason var búinn að flauta þannig Brighton máttu taka spyrnuna en samt sem áður dæmir hann markið af.
Brighton menn hafa verið frábærir í að skapa færi á tímabilinu en nýtingin hefur ekki verið upp á sitt besta og sitja þeir sem fastastir í 16. sæti deildarinnar á meðan West Brom-menn færa sig nær öruggu sæti með 17 stig í 19. sæti.