Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon voru báðir í byrjunarliði CSKA Moskva í rússnesku úrvalsdeildinni í dag þar sem þeir heimsóttu granna sína í Lokomotiv Moskva.
Lokomotiv-menn byrjuðu leikinn af krafti og skoraði Hvít-Rússinn Vitali Lisakovich eftir aðeins sex mínútna leik. Á 41. mínútu tvöfaldaði síðan Grzegorz Krychowiak, fyrrum leikmaður PSG, forystu Lokomotiv. Arnór var tekinn útaf í hálfleik og ekki urðu mörk leiksins fleiri.
Jón Daði Böðvarsson fékk stuttar 5 mínútur með Millwall í tapleik gegn Barnsley í dag. Eftir sex mínútna leik var staðan orðin 1-1 en Cauley Woodrow skoraði fyrir Barnsley og Mason Bennett fyrir Millwall. Michail Helik skoraði síðan sigurmark Barnsley á 59. mínútu. 2-1 tap niðurstaðan.
Andri Fannar Baldursson var ekki í hóp hjá ítalska liðinu Bologna þegar þeir unnu 2-0 sigur gegn Lazio og Böðvar Böðvarsson var heldur ekki í hóp hjá pólska liðinu Jagiellonia Bialystok þegar þeir töpuðu gegn Piast Gliwice.