Framherjinn Sergio Aguero er í byrjunarliði Manchester City sem mæta West Ham í dag klukkan 12:30. Aguero hefur verið að glíma við meiðsli á tímabilinu og hefur ekki byrjað leik í Ensku úrvalsdeildinni síðan 24. október á síðasta ári. Sá leikur var einmitt einnig gegn West Ham.
Miðjumaðurinn og stórstjarna Manchester City, Kevin De Bruyne, byrjar einnig inn á en meiðsli hafa einnig verið að hrjá hann. Hann byrjaði seinasta leik City í deildinni en sat allan tímann á bekknum gegn Borussia Mönchengladbach.
Ljóst er að Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, ætlar ekki að vanmeta West Ham en þeir hafa verið spútnik-lið þessa tímabils og sitja fyrir leikinn í 4. sæti deildarinnar. West Ham hafa þó verið í basli með efstu liðin en eina liðið sem ekki er hluti af „stóru sex“ liðunum sem unnið hefur West Ham-menn var Newcastle í fyrsta leik tímabilsins.