Heiðar Helguson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands er genginn til liðs við Kórdrengi sem leika í Lengjudeildinni á næsta tímabili. Heiðar verður hluti af þjálfarateymi liðsins.
Heiðar kemur með mikla reynslu í lið Kórdrengja, hann á að baki 96 leiki í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði 28 mörk og gaf 9 stoðsendingar. Hann mun án efa geta miðlað sinni reynslu til núverandi leikmanna liðsins.
Rætt var um innkomu Heiðars í Dr. Football hlaðvarpinu í dag. „Þetta er enginn smá reynsla þarna, Heiðar spilaði undir stjórn Ray Lewington, Chris Coleman, Mark Hughes og fleiri,“ sagði Hjörvar Hafliðason um innkomu Heiðars hjá Kórdrengjum.
Kristján Óli Sigurðsson hefur trú á því að Heiðar geri vel í þjálfun. „Þetta verður mjög athyglisvert samstarf, hokinn af reynslu en aldrei þjálfað. Flottur staður til að byrja á.“
Hjörvar myndi setja Heiðar á bekkinn ef Kórdrengjum vantar mörk undir lok leikja í Lengjudeildinni. Heiðar var frábær skallamaður og mögnuð vítaskytta á ferli sínum. „Ég myndi alltaf hafa hann á bekknum ef ég þyrfti eitt úr hornspyrnu á 90 mínútu.“