Gunnar Nielsen markvörður FH og landsliðsmarkvörður Færeyja er gestur í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið hjá Jóhanni Skúla. Gunnar hefur átt ansi merkilegan feril.
Gunnar var 21 árs árið 2007 þegar hann samdi við enska liðið Blackburn, tveimur árum síðar gekk hann í raðir Manchester City. City var þá að verða stórveldi og var Gunnar í herbúðum félagsins til ársins 2012.
Gunnar kom til Íslands árið 2015 og gekk í raðir Stjörnunnar en ári síðar gekk hann í raðir FH þar sem hann er í dag.
Mario Balotelli var í herbúðum Manchester City á þessum árum, þessi litríki framherji frá Ítalíu var oft að koma sér í klandur hjá City og ergja liðsfélaga sína.
„Ég man eftir einu atviki þar sem við sem vorum í varaliðinu vorum að gera armbeygjur og magaæfingar. Allt í einu byrjaði hann að kasta pílum í átt að okkur,“ sagði Gunnar um atvikið þegar Balotelli fór að kasta pílum á leikmenn félagsins.
Sem betur fer enduðu pílurnar frá Balotelli ekki í Gunnari eða liðsfélögum hans. Gunnar lék einn leik í ensku úrvalsdeildinni með City og það gegn Arsenal.
„Þetta lenti einhvers staðar í kringum okkur, sem betur fer lenti þetta ekki í einhverjum. Þegar einhver gerir svona þá hugsar maður að það sé eitthvað að.“