„Ég sagi bara mína skoðun, ég ætlaði ekki að skapa nein vandamál,“ segir Mino Raiola um ummæli sín frá því í desember, degi fyrir mikilvægan leik Manchester United í Meistaradeildinni kom Raiola fram og sagði að Paul Pogba vildi losna sem fyrst frá félaginu.
Ummæli Raiola vöktu athygli, ekki fyrir þá staðreynd að Pogba vildi fara enda hefur það lengi verið vitað. Heldur var það tímasetning þeirra sem vakti mikla reiði hjá stuðningsmönnum Manchester United.
„Þetta var bara mjög einföld skoðun, ég held að þetta hafi ekki truflað neitt því liðið fór á flug eftir þetta. Þeir voru efstir í deildinni um stund, þetta er algjör hrossaskítur.“
„Haldið þið að stórstjarna eins og Pogba og Ole Gunnar Solskjær sem hefur unnið allt á ferlinum, fari á taugum við ummæli frá Mino Raiola?“
„Ef ég hefði þessi svakalegu völd þá myndi ég stjórna FIFA, það er á hreinu,“ sagði Raiola en ætla má að Pogba fari frá United í sumar. Samningur Pogba við United rennur út sumarið 2022 og ef félagið ætlar ekki að missa hann frítt þá þarf að selja hann í sumar.
„Ég ætla ekkert að ræða þetta meira, það er ekki rétt að ræða markaðinn núna. Það gerir lífið vissulega aðeins leiðinlegra en þannig er það.“
„Um leið og ég segi mína þá skoðun þá fá allir brjálæðiskast á Englandi. Ég er versti umboðsmaðurinn eða sá besti. Félög fara á taugum þegar stuðningsmenn pirrast og blaðamenn. Ég hef því lært að tala aðeins minna.“