Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, vonast til þess að ákvörðun um nýjan þjóðarleikvang Íslands verði tekin á árinu.
Hann segir að aðstöðuleysið sem íslensku landsliðin búi við séu orðin hindrun fyrir góðan árangur.
„Það er búið að vinna mikla greiningarvinnu undanfarin misseri og ljóst er að aðstöðuleysið og sú staðreynd að við getum ekki leikið okkar mótsleiki að vetri til er hindrun á góðan árangur og að gerir okkur erfiðara um vik að komast á stórmót,“ skrifar Guðni í Pistli formanns í ársskýrslu KSÍ.
Þá bendir Guðni einnig á þá staðreynd að nýr þjóðarleikvangur geti nýst íslensku félagsliðunum, meðal annars með lengingu keppnistímabils í huga, bikarúrslitaleiki og framtíðarskipulagi á Evrópumótum félagsliða með fleiri vetrarleikjum.
Guðni hvetur stjórnvöld til þess að taka ákvörðun í málinu.
„Nú er einfaldlega tími til kominn að stjórnvöld taki ákvörðun í málinu og við sýnum að við erum íþróttaþjóð með aðstöðu sem stenst kröfur nútímans og samanburðu við aðrar þjóðir álfunnar,“ skrifar Guðni Bergsson, formaður KSÍ í pistli sem birtist í ársskýrslu sambandsins.