Tryggvi Guðmundsson, markahæsti knattspyrnumaður í sögu efstu deildar var til viðtals í hlaðvarpsþættinum FantasyGandalf á dögunum. Tryggvi mætti þá og spjallaði við Huga Halldórsson og Gunnar Sigurðsson um feril sinn og meira til.
Eitt af atvikinum sem rætt var í þættinum var þegar Tryggvi var rekinn frá ÍBV árið 2015, hann var þá aðstoðarþjálfari liðsins. Hann átti að stýra liðinu í leik gegn Breiðablik en hafði mætt undir áhrifum áfengis á æfingu daginn áður, Eyjamenn létu einn sinn dáðsata son taka poka sinn.
„Það var algjörlega mér að kenna, það er högg fyrir mann sem hefur verið í fótbolta frá því að hann man eftir sér að henda takkaskónum upp í hillu.Ég var ekki all inn varðandi þjálfun, ég var það aldrei. Ég tók þessi þjálfaranámskeið þegar ég var í FH, það var aldrei mitt plan að þjálfa. Ég hafði aldrei neina bullandi ástríðu fyrir þjálfun, ég er bara þannig. Ef ég geri eitthvað þá vil ég gera það all inn, ég tók að mér að þjálfa Vængi Júpíters í 3 deildinni fyrir tveimur árum og það gekk vel. Svo var ekkert framhald á því,“ sagði Tryggvi um málið og tók fulla ábyrgð.
Hugi Halldórsson gekk nokkuð á Tryggva og spurði hann hvernig það gengi að þroskast á lífsins leið. „Þetta er hæg vinna,“ sagði Tryggvi.
Hugi hélt þá áfram og spurði Tryggvi út í vandræði með áfengi. „Tölum bara um þetta, þetta er bara brennivínið,“ sagði Hugi við Tryggva sem fljótur til svars. „Jájá, rebellin í mér, ég vil helst ekki að mér sé stjórnað. Hann hefur komið mér um koll, maður er hægt og rólega að fullorðnast. Enda alveg að verða fimmtugur,“ sagði Tryggvi.
Hugi ræddi þá við þennan fyrrum landsliðsmann um hvað hann væri að fást við í dag. „Ég er bara svona hitt og þetta, núna er ég að aðstoða félaga minn sem rekur Kaffivagninn. Ég hjálpa honum yfir hádegið og hann gefur mér að borða á móti. Annars er ég ekki að gera neitt mikið meira, mér finnst það fínt. Maður kemur þessu í rútínu,“ sagði Tryggvi.
Hugi hélt áfram að ræða áfengi við Tryggva sem reynir að halda slíku í algjöru lágmarki. „Ég reyni að gera sem minnst af því, það er ennþá eitthvað. Það er ekkert vesen, maður fer snemma að sofa og vaknar snemma. Það er allt í góðu,“ sagði Tryggvi.
Tryggvi sagði frá því að hann hefði leitað sér hjálpar en ekki fundið sig þar. „Ég sótti fundi á sínum tíma, það hjálpaði mér ekki,“ sagði Tryggvi.
Þessum magnaða knattspyrnumanni myndi langa að starfa í þjálfun en sækir ekki um störf, hann telur að margir óttist það að ráða sig. „Ég sæki ekki um, ég er til staðar. Ef að einhver vill prófa, láta mig taka við. Þá er bara að hafa samband, ég veit að margir hafa áhyggjur af því að ég gæti runnið til á svellinu. Menn eru hræddir við að ráða mig, það er eðlilegt,“ sagði Tryggvi í hlaðvarpsþættinum FantasyGandalf.