AC Milan tók á móti Inter Milan í Derby della Madonnina grannaslagnum í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn endaði með 3-0 sigri Inter sem er á toppi deildarinnar.
Eftirvæntingin fyrir leiknum var mikil. AC Milan og Inter Milan hefur gengið vel á leiktíðinni og skipuðu 1. og 2. sæti deildarinnar fyrir leikinn. Liðin eiga sér bæði farsæla sögu og hafa oftar en ekki skipað efstu sæti deildarinnar þó það hafi ekki verið raunin undanfarin ár.
Sökum Covid-19 heimsfaraldursins gátu stuðningsmenn liðanna ekki mætt á leikinn en það hins vegar stöðvaði þá ekki í því að fjölmenna fyrir utan leikvanginn San Siro á meðan leiknum stóð.
Þúsundir manna mættu fyrir utan leikvanginn og studdu sín lið áfram, veifuðu fánum, kveiktu á blysum og sungu stuðningssöngva.
Fyrsta mark leiksins kom á 5. mínútu, það skoraði Lautaro Martínez eftir undirbúning frá Romelu Lukaku.
Martinez var svo aftur á ferðinni á 57. mínútu er hann tvöfaldaði forystu Inter með marki eftir stoðsendingu frá Ivan Perisic.
Það var síðan Romelu Lukaku sem innsiglaði 3-0 sigur Inter með marki á 66. mínútu eftir stoðsendingu frá Ivan Perisic.
Inter er eftir leikinn í 1. sæti deildarinnar með 53 stig, fjórum stigum meira en AC Milan sem situr í 2. sæti deildarinnar með 49 stig.