Arsenal tók á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn endaði með 1-0 sigri Manchester City en leikið var á heimavelli Arsenal, Emirates Stadium.
Jamie Redknapp, sérfræðingur SkySport segir gæðamuninn á milli liðanna tveggja einfaldlega vera of mikinn. Manchester City sé með mun betri leikmannahóp og hafi fjárfest betur á félagsskiptamarkaðnum.
Þá er hann á því að Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði og framherji Arsenal sé ekki sami leikmaður og hann var þegar hann var upp á sitt besta.
„Hann er kominn af sínu besta skeiði, hann mun eiga sínar stundir, sínar þrennur en hann hefur tapað ofurkröftunum. Ég sá hann hlaupa fram hjá leikmönnum þegar hann kom fyrst í ensku úrvalsdeildina en núna sé ég leikmann sem verður strítt í hverjum einasta leik,“ sagði Redknapp í útsendingu á SkySports eftir leik Arsenal og Manchester City.
Arsenal er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir leik dagsins. Þar situr liðið með 34 stig eftir 25 leiki.