Kylian Mbappe er einn besti knattspyrnumaður í heimi og PSG reynir að sannfæra hann um að vera áfram hjá félaginu. Samningur Mbappe við PSG rennur út sumarið 2022.
Félagið gæti því verið í þeirri stöðu í sumar að þurfa að selja hann eða eiga í hættu á að missa hann frítt.
Mbappe er reglulega orðaður við Real Madrid en Liverpool hefur haft áhuga og ekki er útilokað að þessi franska ofurstjarna endi á Anfield.
Árið 2017 þegar ungur Mbappe var að fara frá Monaco til PSG þá hafði Liverpool áhuga, svo mikinn áhuga að eigandi félagsins flaug til Monaco á einkaflugvél sinni.
John W Henry tók Mbappe á rúntinn í einkaflugvél sinni og þar ræddu þeir málin í tvær klukkustundir á meðan vélin flaug yfir Nice og aðra nærliggjandi staði. Jurgen Klopp, stjóri Liverpool tók upp símann og reyndi að sannfæra hann.
Á endanum valdi Mbappe að fara til PSG en í sumar gæti Liverpool aftur átt möguleika, Mbappe er með stóran samning við Nike sem sér um allan fatnað Liverpool. Það gæti hentað báðum merkjum að fá ofurstjörnu inn á Anfield.
„Ég er ekki að grínast,“ sagði Jamie Carragher fyrrum leikmaður Liverpool í vikunni, hann telur að félagið geti fengið Mbappe í sumar.
„Ég horfi í þær staðreyndir að Liverpool taldi sig eiga góðan möguleika þegar hann var hjá Monaco. Ég veit að Klopp hefur talað við hann.“