Jóhann Berg Guðmundsson þurfti að fara meiddur af velli á 39. mínútu í leik Burnley og Fulham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Jóhann var í byrjunarliði Burnley í leiknum en hann hefur átt góða leiki með liðinu að undanförnu.
Ekki er ljóst á þessari stundu hversu alvarleg meiðsli Jóhanns Bergs eru en hann hélt beint til búningsherbergja er honum var skipt af velli.
Rétt yfir mánuður er í fyrsta leik íslenska landsliðsins í undankeppni HM en þann 25. mars næstkomandi mætir liðið Þýskalandi ytra.
Jóhann Berg hefur verið fastamaður í liðinu undanfarin ár og tíminn mun leiða það í ljós hvort hann verði heill heilsu fyrir leikina í mars.