Helgi Valur Daníelsson, spilaði sinn fyrsta knattspyrnuleik í langan tíma er Fylkir spilaði gegn ÍBV í Lengjubikarnum í kvöld.
Helgi Valur hefur verið lengi frá vegna meiðsla en hann fótbrotnaði illa í leik með Fylki gegn Gróttu í Pepsi deildinni árið 2019. Helgi óttaðist á þeim tíma að knattspyrnuferillinn væri búinn.
„Löppin á mér brotnaði bæði fyrir ofan ökkla og rétt fyrir neðan hné. Lýsir sér eiginlega þannig að það fór biti úr leggnum. Þegar ég meiddist, þá vissi ég ekki strax hversu alvarleg meiðslin voru. Ég fann að fóturinn var næstum því alveg brotinn í tvennt og þá fór ég í smá panikk og hugsaði mikið út í það næstu klukkustundirnar að ferill minn í knattspyrnu gæti verið búinn.“ sagði Helgi í viðtali við 433.is í fyrra.
Helgi verður fertugur á árinu en hann ætlar sér byrjunarliðssæti í liði Fylkis á komandi tímabili.
„Við erum með flottan hóp og marga unga og efnilega leikmenn, liðið stóð sig vel í sumar og var í Evrópubaráttu. Stjórn og þjálfarar félagsins telja að
ég geti hjálpað liðinu á næsta tímabili. Ég ætla mér ekkert að vera bara í kringum þetta lið, ég ætla að keppa um sæti í byrjunarliðinu og hjálpa því að ná sínum markmiðum.“ sagði Helgi Valur Daníelsson leikmaður Fylkis í viðtali við 433.is í fyrra.
Viðtalið við Helga Val sem tekið var í fyrra, má lesa hér.
Gaman að sjá @HelgiDanielsson koma inn á í fyrsta sinn hjá @FylkirFC síðan hann fjórbrotnaði í júní #fotboltinet pic.twitter.com/Or3UVfu4ZQ
— Hrafnkell Helgi Helgason (@HHelgason7) February 17, 2021