„Það er komin tími á það að Manchester City verði Harry Kane liðið,“ skrifar Martin Samuel blaðamaður hjá Daily Mail um Harry Kane framherja Tottenham. Enski framherjinn fagnar brátt 28 ára afmæli sínu.
Reglulega hefur verið rætt um það að Kane gæti farið frá Tottenham en hann hefur viljað bíða, lengi vel var útlit fyrir að Tottenham væri að fara að vinna stóra titla.
Undir stjórn Jose Mourinho hefur Tottenham ekki náð vopnum sínum en liðið er þó í úrslitaleik deildarbikarsins. Andstæðingarnir þar verða Manchester City sem vann Spurs 3-0 um helgina.
„Kane á í hættu á að missa bestu ár ferilsins í þessum aðstæðum, hann væri mikil bylting fyrir sóknasinnað lið Pep Guardiola,“ skrifar Samuel.
„Spurs er áfram í vandræðum og Kane er að fara inn í sín bestu ár. Í sumar gæti sá tímapunktur komið að hann vilji fara frá Tottenham og fá nýja áskorun. City þarf sóknarmann fyrir Kun Aguero og Kane gæti hentað fullkomlega.“