Titilvörn Liverpool hefur ekki heppnast vel, eftir að hafa unnið deildina með yfirburðum í fyrra er bakslag í Bítlaborginni. Fjöldi leikmanna Liverpool hefur glímt við meiðsli og aðrir lykilmenn finna ekki taktinn.
Jurgen Klopp hefur í nokkur ár nánast spilað á sama liðinu og virðist örla á þreytu í leikmannahópnum. Mikill kraftur og orka fer í leikstíl Liverpool og leikmennirnir virðast margir þurfa á hvíld að halda.
„Þeir eru bara mannlegir, það er spurning hvort að Klopp hafi átt að hugsa aðeins lengra fram í tímann. Fylgjast með mínútum hverra leikmanna fyrir sig, og hugsa um hvenær væri hægt að gefa frítt,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen á Vellinum hjá Síminn Sport í gær.
Liverpool tapaði gegn Leicester um helgina og var það þriðja tap liðsins í röð í ensku úrvalsdeildinni. „4-5 leikmenn eru á sama tíma mjög þreyttir, fimm á hliðarlínunni meiddir svo ofan á það.“
„Þeir eru bara mannlegir,“ sagði @Eidur22Official í Vellinum í gærkvöldi um leikmenn Liverpool sem hafa glímt við mikil meiðsli og keyrt lengi á sömu lykilmönnunum en meistararnir töpuðu fyrir Leicester um helgina. pic.twitter.com/wIaeVwmMNJ
— Síminn (@siminn) February 15, 2021
Gylfi Einarsson sem var sérfræðingur með Eiði Smára í gær segir að Klopp geti ekki hvílt leikmenn, hann sé ekki með jafn sterkan hóp og Manchester City.
„Hann getur ekki hvílt þá, leikmennirnir sem eru á bekknum eru ekki nógu góðir. Hópurinn er það góður hjá City að þeir geta þetta, heavy metal fótbolti á nánast sama liðinu í þrjú ár tekur á.“