Pierre Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal, hefur verið að ganga í gegnum erfiða tíma að undanförnu, bæði innan- og utan vallar. Hlutirnir virðast hins vegar vera farnir að snúast honum í vil.
Aubameyang skoraði þrjú mörk í 4-2 sigri Arsenal á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í gær. Erfiðlega hafði gengið fyrir framherjann að skora mörk á tímabilinu og þá höfðu veikindi móður hans einnig sett strik í reikninginn.
„Allir hafa verið að hugsa hlýtt til mín, móður minnar og fjölskyldu. Ég verð að þakka öllum hjá Arsenal og stuðningsmönnum liðsins,“ sagði Aubameyang í viðtali eftir leik.
Hann viðurkennir að undanfarnir mánuðir hafi verið erfiðir.
„Þessi þrenna hefur mikla þýðingu fyrir mig. Ég er einstaklingur sem legg alltaf mikið á mig en ég hef átt eriftt undanfarið,“ sagði Pierre Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal.