Leikmenn hollenska liðsins Ajax sýndu liðsfélaga sínum, markverðinum Andre Onana, tákrænan stuðning fyrir leik liðsins gegn PSV í hollenska bikarnum.
Onana spilar ekki knattspyrnu næsta árið. UEFA hefur dæmt hann í tólf mánaða bann eftir að ólögleg lyf fundust í líkama hans. Onana var lyfjaprófaður í lok október og þar fannst lyfið Furosemide sem er ólöglegt í íþróttum. Onana pissaði í glas og þar komst upp um atvik hans.
Leikmenn Ajax klæddust treyjum merktum Onana og númeri hans 24 fyrir leikinn gegn PSV í gær á meðan þeir hituðu upp fyrir leikinn.
Edwin Van Der Sar, framkvæmdastjóri Ajax, hefur gripið til varna fyrir hinn 24 ára gamla markvörð og félagið ætlar að áfrýja dómi UEFA. Þeir segja að Onana hafi fyrir mistök tekið lyfin sem tilheyrðu konu hans.
Forráðamenn Ajax eru vongóðir um að dómurinn verði ógildur en Onana hefur verið eftirsóttur af stórum félögum í Evrópu og ljóst að 12 mánaða bann gæti sett strik í reikninginn. Samningur hans við Ajax rennur út árið 2022.
„Onana er verðmætur í þessum bransa, hann var á lista hjá mörgum stórum liðum,“ sagði Edwin Van Der Sar, framkvæmdastjóri Ajax.
UEFA er meðvitað um að Onana hafi ekki ætlað sér að svindla en í dómnum segir að atvinnumaður í íþróttum eigi að vera meðvitaður um að taka ekki hvaða pillu sem er. Lyfið á að hjálpa við að losna við vatn og salt úr líkamanum.