Það var heldur betur boðið upp á knattspyrnuveislu á Goodison Park í gær er Everton og Tottenham mættust í 5. umferð enska bikarsins. Nóg var af mörkum og framlengja þurfti leikinn til að skera úr um sigurvegara. Everton hafði að lokum betur 5-4 eftir framlenginguna.
Gylfi Þór Sigurðsson bar fyrirliðabandið í liði Everton í leiknum og átti stórkostlegan leik. Hann skoraði meðal annars eitt mark og gaf þrjár stoðsendingar, þar á meðal í sigurmarki leiksins sem kom í framlengingu. Gylfi Þór átti stoðsendinguna í fyrsta marki Everton sem Dominic Calvert-Lewin skoraði og jafnaði leikinn í stöðuna 1-1.
Á 43. mínútu skoraði Gylfi Þór, þriðja mark Everton úr vítaspyrnu og kom þeim í stöðuna 3-1. Gylfi átti síðan stoðsendinguna í fjórða marki Everton sem kom á 68. mínútu og var skorað af Richarlison.
Staðan eftir venjulegan leiktíma var 4-4 og því þurfti að grípa til framlengingar. Á 97. mínútu kom Bernard, Everton yfir með marki eftir stoðsendingu frá engum öðrum en Gylfa Þór Sigurðssyni, hreint út sagt mögnuð frammistaða Gylfa kórónuð. Þetta reyndist sigurmark leiksins.
Rætt var um magnaða frammistöðu Gylfa í leiknum á BT Sport, Rio Ferdinand fyrrum leikmaður Manchester United dásamaði íslenska landsliðsmanninn. „Hann er rólegur, boltinn kemur til hans. Hann snýr Dele Alli af sér og sendir boltann inn með vinstri fæti sem er hans veikari fótur. Þvílíkur snúningur, tæknin að klára sendinguna er frábær,“ sagði Rio Ferdinand um sigurmark Everton sem Gylfi bjó til.
Jermaine Jenas sagði varnarleik Tottenham hafa verið slakan, það sé ekki í boði að gefa eftir gegn Gylfa. „Þetta er slakt mark hjá Tottenham að fá á sig, þeir voru þreyttir en þú getur ekki gefið eftir gegn svona gæðaleikmanni“
Þetta var í ellefta skipti sem Gylfi ber fyrirliðaband Everton á þessari leiktíð og hefur liðið unnið níu af þeim leikjum, 82 prósent sigurhlutfall.