Forráðamenn spænska liðsins Real Sociedad eru langt því frá sáttir með ákvörðun UEFA um að fyrri leikur liðsins gegn Manchester United í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar, sem átti að vera spilaður á Spáni, verði nú spilaður á Ítalíu.
Fyrri leikur liðanna sem átti að fara fram á Anoeta, heimavelli Real Sociedad var færður á heimavöll Juventus á Ítalíu vegna takmarkana á Spáni og Bretlandi sökum Covid-19. Seinni leikur liðanna fær að fara fram á heimavelli Manchester United, Old Trafford.
Forráðamenn Real Sociedad segja ákvörðunina vera ósanngjarna og það er mat þeirra að með þessari útfærslu fái Manchester United forskot.
„Við viljum að báðir leikirnir verði spilaðir á hlutlausum velli eða að UEFA velji einn völl þar sem að einn leikur yrði spilaður eins og í fyrra,“ sagði Roberto Olabe, yfirmaður knattspyrnumála hjá Real Sociedad.
Færa hefur þurft marga leiki, bæði í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni sökum Covid-19 takmarkana. Til að mynda verða viðureignir Arsenal og portúgalska liðsins Benfica spilaðar á Ítalíu og á Grikklandi.
Fyrri leikur Manchester United og Real Sociedad fer fram þann 18. febrúar næstkomandi á Ítalíu. Seinni leikur liðanna fer fram 25. febrúar á Old Trafford í Manchester.