Mark Hughes, fyrrverandi leikmaður Manchester United, vill að sitt gamla félag framlengi samning framherjans Edinson Cavani.
Cavani gekk til liðs við Manchester United á frjálsri sölu í október á síðasta ári og gerði eins árs samning við félagið. Hann hefur spilað 22 leiki á þessari leiktíð og skorað 7 mörk.
„Hann gerir gæfumuninn að mínu mati. Fyrir komu hans var búið að prófa Rashford, Martial og Greenwood í framherjastöðunni en mér fannst enginn af þeim skilja hlutverk framherjans eins og maður þarf að gera – að vera aðal skotmarkið og áhersla sóknarleiksins,“ sagði Mark Hughes í viðtali á Talksport.
Mark Hughes skoraði 163 mörk í 467 leikjum með Manchester United sem framherji og hann er hrifinn af leikstíl Cavani.
„Þegar Cavani spilar þá skynjar maður aðeins meiri einbeitningu og áhersluatriði í sóknarleik liðsins. Að sama skapi geta hinir leikmennirnir (Rashford, Martial og Greenwood) spilað í sínum náttúrulegu stöðum,“ sagði Mark Hughes, fyrrverandi leikmaður Manchester United.
Klásúla er í samningi Cavani um að hægt sé að framlengja núverandi samning um eitt ár.