Stan Collymore fyrrum framherji Liverpool hefur ráðlagt sínu gamla félagi að skoða það að kaupa Harry Kane, framherja Tottenham í sumar.
Liverpool hefur fatast flugið eftir mögnuð ár og er nú mikið rætt og ritað um að Jurgen Klopp þurfi að hrista upp í leikmannahópi sínum.
Margir hafa talað um að Harry Kane, einn besti framherji í heimi gæti skoðað það að fara frá Tottenham í sumar til að vinna stóru titlana.
„Þeir þurfa að vakna og finna lyktina af kaffinu, FSG eigendur félagsins þurfa að fara að eyða peningum eins og City gerir,“ sagði Collymore.
„Ef City fer út og kaupir Erling Haaland í sumar þá þarf Liverpool að skoða það að kaupa Harry Kane.“
„Þeir geta ekki setið og talað um gott byrjunarlið, og hugsað um að góðir ungir menn komi og hjálpi. Það eru of mörg lið sem eyða peningum svo það dugar ekki hjá Liverpool.“