Raphael Varane, leikmaður Real Madrid er á radarnum hjá Manchester United fyrir félagsskiptamarkað sumarsins. Þetta herma heimildir Mirror.
Talið er að Manchester United vilji næla sér í reynslumikinn miðvörð fyrir næsta tímabil og Varane þykir álitlegur kostur en samningur hans við Real Madrid rennur út árið 2022.
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, reyndi á sínum tíma að næla í leikmanninn en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Real Madrid, Varane lék þá fyrir Lens í Frakklandi.
„Árið 2011 fór ég til Lille. Zinedine Zidane frétti af því og náði einhvern veginn að stela honum frá mér,“ skrifaði Sir Alex Ferguson, í ævisögu sinni, um reynslu sína af því að reyna næla í Varane.
Óvíst er hvort Varane skrifi undir nýjan samning við spænska félagið og því gæti félagið freistað þess að selja hann frekar en að missa hann á frjálsri sölu.
Varane hefur spilað 346 leiki fyrir Real Madrid, skorað 17 mörk og gefið 7 stoðsendingar. Hann hefur verið sigursæll með liðinu, unnið spænsku deildina í þrígang, Meistaradeild Evrópu í fjórgang og orðið spænskur bikarmeistari.