Thiago Silva varnarmaður Chelsea ætlar að leggja allt í sölurnar til að spila leikinn sem hann elskar til fertugs. Varnarmaðurinn frá Brasilíu verður 37 ára síðar á þessu ári.
Silva gekk í raðir Chelsea síðasta sumar frá PSG og hefur staðið vaktina í vörn Chelsea af stakri prýði. Félagið hefur áhuga á að framlengja dvöl hans í Lundúnum.
Silva leggur mikla áherslu á endurheimt sína á milli leikja og leggur allt í sölurnar til að geta spilað alla leiki. „Ég tek tvo klukkutíma á dag í súrefnisbúri til að hjálpa við endurheimt,“ sagði Silva við 442 um málið.
„Ég er með sérstakt búr heima, þar fæ ég hreint loft og þetta hjálpar mér mikið í minni endurheimt. Ég byrjaði á þessu fyrir sjö árum í París.“
Silva segist hafa skoðað hvað leikmenn í NBA deildinni í Bandaríkjunum gera til að endurheimta. „Ég vann með þjálfara sem skoðaði þetta fyrir mig.“
„Miðað við leikjaálagið þar þá þarf endurheimtin að vera í lagi. Mér fannst það sniðugt að fara sömu leið og þeir.“