Íslenski landsliðsmaðurinn, Mikael Neville Anderson var settur út úr leikmannahópi Midtjylland í Danmörku fyrir að láta hnefana tala á æfingu liðsins.
Ekstrabladet segir frá þessu en Mikael Neville var ekki í leikmannahópi liðsins gegn Randers í dönsku úrvalsdeildinni í gær.
Samkvæmt fréttinni í Danmörku lenti Mikael saman við Sory Kaba framherja liðsins á æfingu í vikunni. Allt sauð upp úr og létu liðsfélagarnir hnefana tala.
Báðir voru reknir heim af æfingu liðsins og ekki valdir í hópinn gegn Randers í gær þar sem liðið vann 2-1 sigur. „Ég ætla ekki að ræða þetta mál neitt sérstaklega, þeir voru ekki í hópnum í kvöld,“ sagði Brian Priske þjálfari Midtjylland.
„Það sem gerist á æfingasvæðinu er bara leyst þar, þannig hafa hlutirnir alltaf verið hjá okkur.“
Mikael er 22 ára gamall kantmaður en hann á að baki sjö landsleiki fyrir Ísland. Hann neitaði að taka þátt í verkefni U21 árs landsliðsins á síðasta ári og vakti það athygli, hann taldi betra fyrir sig að eyða tímanum hjá Midtjylland.