Paul Field, yfirmaður dómarasamtakanna í Englandi, telur að það aðkast og þær hótanir sem knattspyrnudómarar verða fyrir, muni enda með því að dómari muni láta lífið.
Mike Dean, dómari í ensku úrvalsdeildinni hefur fengið það í gegn að dæma ekki í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Dean bað um frí eftir að honum og fjölskyldu hans bárust morðhótanir eftir mistök sem hann gerði í leik Fulham og West Ham í ensku úrvalsdeildinni.
Dean rak Tomas Soucek, miðjumann West Ham af velli fyrir litar sem engar sakir og var rauða spjaldið fellt úr gildi eftir að West Ham áfrýjaði dómnum.
„Mike Dean er fórnarlamb. Hann þarf að líta eftir hagsmunum sínum og fjölskyldu sinnar. Þetta er með öllu ólíðandi (hótanirnar) og einn daginn mun dómari verða drepinn,“ sagði Paul Field, formaður dómarasamtakanna í Englandi.
Field vill fá harðari viðurlög við því að beita dómurum aðkasti og hótunum. Hann segist hafa talað fyrir málinu hjá breskum stjórnvöldum en fyrir daufum eyrum.
„Ég hef varað yfirvöld við þessu, einn daginn munum við eiga samtal eftir að knattspyrnudómari hefur látið lífið,“ sagði Paul Field.
Tomas Soucek, leikmaðurinn sem Mike Dean rak af velli á dögunum hefur fordæmt hótanirnar sem voru sendar Mike Dean og fjölskyldu hans.
„Allar ákvarðanir sem eru teknar inn á vellinum eiga að vera skildar eftir þar. Mér þykir ekki gott að heyra að þær séu að hafa áhrif á einkalíf fólks og ég sendi Mike Dean og fjölskyldu hans stuðningskveðjur. Það er ekkert pláss fyrir aðkast af þessu tagi. Þetta tilheyrir fortíðinni og nú er ég einbeittur á restina af tímabilinu,“ skrifaði Tomas Soucek, leikmaður West Ham á Twitter.