Það má með sanni segja að John Terry, fyrrverandi fyrirliði Chelsea og núverandi aðstoðarþjálfari Aston Villa, elski ítölsku bílana Ferrari.
Ferrari Enzo, er einn þeirra bíla sem John Terry á en það hefur verið draumabíllinn hans síðan í æsku.
„Ég átti það til að heimsækja sýningarsal í Surrey, þeir voru með Ferrari Enzo og það hafði verið draumabíllinn minn þegar að ég ólst upp en ég hafði aldrei efni á honum,“ sagði John Terry.
Eftir að hafa unnið Evrópudeildina með Chelsea árið 2013, ákvað Terry að kaupa sér 2002 árgerð af Ferrari Enzo en hann er sagður metinn á um 2 milljónir punda, rúmar 353 milljónir króna.
Auk Ferrari Enzo á John Terry, Ferrari 275 GTB, Ferrari 458 Spider og Ferrari Testarossa. Alls er Ferrari safn John Terry metið á um 4 milljónir punda, rúmar 706 milljónir íslenskra króna.