Manchester City vann í gær sannfærandi 4-1 sigur á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Phil Foden, leikmaður Manchester City, var öflugur í leiknum en hann gaf stoðsendingu og skoraði fjórða mark liðsins.
Eftir leik birti hann skemmtilega mynd sem undirstrikar það ferðalag sem síðustu ár hjá honum hafa verið.
Önnur myndin sem Foden birti var úr leik Manchester City gegn Swansea í nóvember árið 2014. Á myndinni sést Stevan Jovetic, leikmaður Manchester City fagna og í bakgrunninum er ungur Phil Foden, sem þá var boltasækir á leiknum.
Hin myndin sem Foden birti var síðan úr leik Liverpool og Manchester City í gær og er frá þeirri stundu er hann skoraði fjórða mark Manchester City í leiknum.
Foden er einungis 20 ára gamall en hefur ávallt verið mikils metin hjá Pep Guardiola, knattspyrnustjóra liðsins og hefur nú stimplað sig rækilega inn í lið Manchester City.
Englendingurinn ungi hefur spilað 17 leiki með Manchester City í ensku úrvalsdeildinnni á þessu tímabili, skorað fimm mörk og gefið 3 stoðsendingar.
Manchester City er sem stendur í 1. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 50 stig og fimm stiga forskot á Manchester United sem situr í 2. sæti.
How it started How it’s going pic.twitter.com/QUfHqjxuAP
— Phil Foden (@PhilFoden) February 7, 2021