Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, var að vonum svekktur eftir 3-3 jafntefli liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær. United glutraði niður tveggja marka forystu og fékk einnig á sig jöfnunarmark í uppbótartíma.
„Við erum að fá á okkur of mikið af mörkum í hverjum leik og á heimavelli erum við að fá allt of mörg mörk á okkur,“ sagði Bruno Fernandes í viðtali eftir leik.
Hann segir að liðið eigi ekki að tapa niður tveggja marka forystu.
„Ég tel að við eigum að vinna leikinn þegar við erum komnir tveimur mörkum yfir. Það skiptir ekki máli hvernig við vinnum hann,“ sagði Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United.
Manchester United hefur fengið á sig 30 mörk í 23 leikjum í deildinni. Til samanburðar hefur Manchester City fengið á sig 13 mörk í 21 leik. Sóknarleikur liðsins hefur hins vegar gengið mjög vel. Liðið hefur skorað flest mörk í deildinni, alls 49 talsins.
Manchester United varð af mikilvægum stigum í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar með 3-3 jafnteflinu við Everton. Liðið er nú í 2. sæti deildarinnar með 45 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Manchester City sem á tvo leiki til góða á granna sína í United.