Cristiano Ronaldo, varð í gær 36 ára gamall. Það er aldur þar sem flestir leikmenn væru farnir að gefa eftir en Ronaldo heldur sér góðum og spilar enn þá á hæsta gæðastigi og er einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar.
Ronaldo fagnaði stóra deginum með fjölskyldu sinni og birti hjartnæm skilaboð til stuðningsmanna sinna þar sem hann leit yfir farinn veg.
„36 ára gamall, ótrúlegt! Mér finnst eins og það hafi gerst í gær að ég hóf knattspyrnuferil minn en þetta ferðalag hefur verið fullt af ævintýrum og minnisstæðum stundum. Fyrsti boltinn minn, fyrsta liðið mitt, fyrsta markið mitt… Tíminn flýgur áfram,“ skrifaði Ronaldo í innleggi sem birtist á samfélagsmiðlinum Instagram.
Ronaldo hefur á sínum ferli spilað með Sporting, Manchester United, Real Madrid og Juventus. Hvar sem hann hefur spilað hefur hann notið mikillar velgengni.
„Ég hef gefið allt í þetta, aldrei haldið aftur af mér og alltaf reynt að skila inn bestu mögulegu útgáfunni af sjálfum mér. Í staðinn fékk ég frá ykkur ást og aðdáun, nærveru ykkar og skilyrðislausan stuðning. Fyrir það get ég ekki þakkað ykkur nægilega mikið, ég hefði ekki getað afrekað þetta allt án ykkar,“ skrifaði Ronaldo.
Hann gaf síðan stuðningsmönnum sínum loforð.
„Nú þegar að ég fagna 36 ára afmæli mínu og tuttugasta ári mínu sem atvinnumaður í knattspyrnu, þykir mér það leitt að geta ekki lofað ykkur tuttugu árum í viðbót af þessu. Það sem ég get lofað ykkur er að svo lengi sem ég spila munu þið alltaf fá 100% framlag frá mér,“ skrifaði Cristiano Ronaldo til stuðningsmanna sinna.