Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid krefst þess að fjölmiðlar sýni honum virðingu og fullyrðir að Real Madrid geti enn orðið Spánarmeistari.
Gengi Real Madrid á tímabilinu hefur ekki verið nægilega gott. Liðið situr í 3. sæti spænsku deildarinnar með 40 stig, tíu stigum á eftir toppliði Atletico Madrid sem á einnig leik til góða á Real Madrid. Þá datt liðið einnig úr spænska bikarnum eftir niðurlægjandi tap gegn neðri deildar liðinu Alcoyano.
Zidane hefur þurft að þola mikla gagnrýni, bæði frá fjölmiðlum sem og stuðningsmönnum liðsins sem telja hann kominn á endastöð í Madrid. Zidane er goðsögn hjá Real eftir að hafa spilað við góðan orðstír þar og einnig gert frábæra hluti með liðið sem knattspyrnustjóri.
„Það sem fær mig til að hlægja eru spurningar ykkar um það af hverju ég er pirraður. Ég á það ekki skilið að komið sé fram við mig svona eins og fjölmiðlar hafa gert. Við unnum deildina á síðasta tímabili og ég vonast eftir smá virðingu,“ sagði pirraður Zinedine Zidane á blaðamannafundi.
Zidane telur að Real eigi enn þá góða möguleika á að vinna titil á tímabilinu.
„Við unnum okkur inn þann rétt að berjast um titilinn á þessu tímabili, gefið okkur að minnsta kosti tíma út leiktíðina. Það munu þurfa að eiga sér stað breytingar á næsta tímabili en á þessu tímabili leyfið okkur, liðinu sem vann deildina á síðasta tímabili að gera atlögu að titlinum,“ sagði Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid.
Real Madrid berst nú á tveimur vígstöðum, spænsku deildinni og Meistaradeild Evrópu þar sem liðið er komið í 16-liða úrslit keppninnar og mætir þar ítalska liðinu Atalanta.