Forráðamenn Borussia Dortmund, virðast smátt og smátt vera farnir að sætta sig við þá staðreynd að Englendingurinn Jadon Sancho muni yfirgefa félagið næsta sumar. Leikmaðurinn fór ekki frá félaginu fyrir tímabilið þrátt fyrir mikinn áhuga Manchester United.
Dortmund krafðist á þeim tíma rúmlega 108 milljóna punda fyrir leikmanninn.
Covid-19 heimsfaraldurinn hefur hins vegar sett strik í reikninginn fyrir knattspyrnufélög og versnandi fjárhagsstaða félaga á borð við Dortmund hefur valdið því að það sættir sig nú við að fá rúmlega 88 milljónir punda fyrir Sancho.
Fjárhagsáætlanir þýska liðsins gera ráð fyrir tapi upp á rúmlega 65 milljónir punda á þessu ári en tapið gæti orðið mun meira takist liðinu ekki að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Liðið er sem stendur í 6. sæti þýsku deildarinnar.
Jadon Sancho er 20 ára gamall kantmaður. Hann hefur spilað 124 leiki fyrir Dortmund, skorað 42 mörk og gefið 57 stoðsendingar. Heimildir Sport 1 herma að Manchester United og Chelsea séu á meðal félaga sem vilja fá leikmanninn.