Bandaríska hamborgarakeðjan Burger King, sá leik á borði eftir að Eden Hazard, leikmaður Real Madrid, missti af enn einni æfingunni með liðinu sökum þrálátra meiðsla.
El Chringuito TV, er þáttur sem fylgist grannt með stöðu mála hjá Real Madrid en forsvarsmenn þáttarins áttuðu sig ekki á fjarveru Eden Hazard á æfingu hjá Madrídarliðinu á dögunum miðað við innlegg sem birtist á Twitter.
Burger King sá leik á borði og svaraði því að fjarvera Eden Hazard skýrðist af því að það væri 2 fyrir 1 tilboð á Burger King.
2×1 en Burger King. https://t.co/ac6iLKx4TZ
— Burger King España (@burgerking_es) February 2, 2021
Hazard hefur verið að glíma við langvarandi meiðsli og hefur aldrei náð að sýna sitt rétta andlit með Real Madrid eftir að hann gekk til liðs við liðið frá Chelsea fyrir 130 milljónir punda árið 2019.
Læknir belgíska landsliðsins, Kristofer Sas, lýsti yfir miklum áhyggjum varðandi Eden Hazard og hans meiðslavandræði. Hazard meiddist enn og aftur á dögunum og verður frá í að minnsta kosti sex vikur.
„Hazard er í vítahring og það er erfitt að komast út úr honum, vöðvameiðslin núna eru áhyggjuefni. Knattspyrnumaður verður að geta sparkað, snúið, hoppað, allt á miklum hraða,“ sagði Kristof Sas, læknir belgíska landsliðsins í samtali við Nieuwsblad.