Leikmenn og starfslið þýska liðsins Bayern Munchen neyddust til að eyða nóttinni í flugvél á flugvellinum í Berlín.
Bayern vann 1-0 sigur á Herthu Berlin í þýsku úrvalsdeildinni í gær og átti síðan í kjölfarið að fljúga til Doha í Katar þar sem liðið keppir í Heimsmeistarakeppni félagsliða.
Aðstæður í Berlín voru ekki með besta móti og flugi liðsins var seinkað um sjö klukkustundir vegna mikillar snjókomu. Leikmenn og starfslið máttu ekki yfirgefa vélina sökum Covid-19 reglugerðar og þurftu því að bíða í flugvélinni þangað til hún gat tekið á loft.
Bayern mætir egypska liðinu Al-Ahly á mánudaginn og hefur því aðeins sunnudaginn til æfinga.