Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal var að vonum svekktur eftir 1-0 tap liðsins gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Arteta kveðst vera heilt yfir ánægður með frammistöðu liðsins en það megi ekki við mistökum líkt og áttu sér stað í aðdraganda marksins hjá Aston Villa.
„Þetta var sterk frammistaða frá okkur. Við réðum yfir leiknum og hefðum átt að vinna hann. En þegar að þú gefur andstæðingnum mark, þrjú önnur tækifæri og getur ekki nýtt þín eigin færi, þá vinnurðu ekki leiki,“ sagði Arteta á blaðamannafundi eftir leik.
Ollie Watkins skoraði eina mark leiksins á 2. mínútu eftir að Cedric Soares, varnarmaður Arsenall, gerði sig sekan um slæm mistök í aðdraganda marksins.
„Efstu liðin gera ekki svona mistök. Efstu liðin geta heldur ekki spilað fjóra eða fimm leiki einum manni færri og náð í úrslit, það bara gerist ekki. Það er ekki til það lið í heiminum sem gæti gert það. Ef þú færð á þig mark snemma leiks eða gerir mistök þá þarftu að bregðast við,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal.
Arsenal er eftir leikinn í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 23 leiki.