Jan Bednarek, varnarmaður Southampton þarf ekki að fara í leikbann þrátt fyrir að hafa fengið að líta rauða spjaldið í leik liðsins gegn Manchester United á dögunum.
Southampton áfrýjaði rauða spjaldinu sem Bednarek fékk eftir að harðan dóm þar sem dómarinn taldi hann hafa brotið á Anthony Martial, sóknarmanni Manchester United.
„Martial sagði að þetta væri ekki brot,“ mátti heyra Bednarek segja er hann gekk af velli eftir að hafa fengið rauða spjaldið.
Áfrýjunin hefur nú verið tekin fyrir hjá enska knattspyrnusambandinu og var ákveðið að rauða spjaldið yrði tekið til baka. Bednarek mun því geta spilað með Southampton gegn Newcastle United á laugardaginn.
Davið Luiz, varnarmaður Arsenal, var ekki jafn heppinn. Luiz fékk að líta rauða spjaldið eftir að hafa brotið á Willian Jose, sóknarmanni Wolves, innan teigs. Arsenal áfrýjaði rauða spjaldinu en hafði ekki erindi sem erfiði.
„Við höfum unnið hörðum höndum að því að fá leikbanni Luiz aflétt. Við fluttum mál okkar fyrir enska knattspyrnusambandið en erum vonsvikin með að áfrýjun okkar náði ekki tilætluðum árangri,“ segir í yfirlýsingu sem Arsenal sendi frá sér í dag.